05/10/2024

Íslandsmeistaramót í hrútadómum á laugardaginn


Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er svo stærsti viðburður ársins, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum, sem verður haldið laugardaginn 17. ágúst og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð. Jafnan er góð þátttaka í hrútadómunum, bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara. Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Síðasta ár sigraði Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi og var það í þriðja sinn sem hann vann keppnina. Í öðru sæti á síðasta ári var Eiríkur Helgason í Stykkishólmi og Helga Guðmundsdóttir í Stykkishólmi í því þriðja.

Á Sauðfjársetrinu eru nú uppi tvær sérsýningar, fyrir utan fastasýningu safnsins sem ber yfirskriftina Sauðfé í sögu þjóðar. Önnur er listsýning á þæfðum myndum eftir listakonuna Margréti Steingrímsdóttir frá Siglufirði og hin er sögusýning sem fjallar um hagleiksmanninn Þorstein Magnússon á Hólmavík. Þar er fjallað um ævi hans og störf og sýndir listilega vel gerðir smáhlutir sem hann smíðaði og seldi, eftirlíkingar af amboðum sem tilheyrðu gamla sveitasamfélaginu.

Safnið er opið alla daga milli 10-18 út ágústmánuð, um helgar í september og eftir samkomulagi á öðrum tímum. Í haust er stefnt að frekari viðburðum og fyrirlestrum, m.a. sviðaveislu en sá viðburður heppnaðist mjög vel á síðasta ári.

Þann 7. september verður líka opnuð ný sérsýning á Sauðfjársetrinu sem hefur yfirskriftina Álagablettir. Í tengslum við opnunina verður málþing um þjóðtrú og er dagsetningin 7-9-13 sérstaklega valin með viðfangsefnið í huga.