22/12/2024

Idolið heldur áfram

Heiða Ólafs í 7 manna úrslitum Idol í kvöld - ljósm. Idol.isStrandamaðurinn Heiða Ólafs og sex aðrir keppendur halda áfram í söngvarakeppninni á Stöð 2 í kvöld. Þema kvöldsins verður Keflavíkurlög og munu keppendurnir því syngja lög eftir tónlistarmenn frá rokkbænum Keflavík. Það verður gaman að fylgjast með Heiðu í kvöld en hún hefur staðið sig með miklum sóma í keppninni hingað til. Lagið sem Heiða mun flytja er eftir annan Strandamann, en það er lagið Himinn og jörð eftir Gunnar Þórðarson.

Gestadómari kvöldsins verður enginn annar en Rúnar Júlíusson sem ætti að vera flestum kunnur, og ekki síst ungum tónlistarmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í bransanum. Hann hefur verið iðinn við að aðstoða ungt fólk að stíga þau skref í gegnum tíðina.

Keppendurnir í 7 manna úrslitum í kvöld eru auk Heiðu, þau Brynja, Davíð Smári, Helgi Þór, Hildur Vala, Lísa og Ylfa. Heiða Ólafs verður númer tvö í röð flytjenda í keppninni í kvöld sem er að vanda haldin í Vetrargarðinum í Smáralind og er sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2, klukkan 20:30.

Hólmvíkingar stefna að því að hafa Idol kvöld í Bragganum á Hólmavík í keppninni eftir viku, en verið er að vinna að því að svo geti orðið. Til þess þarf að sjálfsögðu að kaupa leyfi frá Stöð 2 sem er rétthafi keppninnar en að sögn Arnars Jónssonar, annars skipuleggjanda Idol á Hólmavík ætti að vera fátt því til fyrirstöðu, ef áhugi er á því meðal íbúa að borga sig inn á kvöldið til að hafa upp í þann kostnað.