13/12/2024

Hljóðbókin Þjóðsögur af Ströndum væntanleg í haust

300-vegvisirKómedíuleikhúsið hefur verið að hasla sér völl í hljóðbókaútgáfu og hefur nú þegar gefið út þrjár slíkar með þjóðsögum úr Vesturbyggð, Bolungarvík og Ísafjarðarbæ. Hefur bókunum verið vel tekið og hefur salan gengið framar vonum. Nú stendur yfir undirbúningur að fjórðu hljóðbók Kómedíuleikhússins og er enn leitað í hinn magnaða þjóðsagnaarf. Næsta bók mun innihalda Þjóðsögur af Ströndum sem er einkar vel við hæfi, enda víðfrægt þjóðsagnasvæði þar sem tröll, draugar og galdramenn hafa löngum leikið lausum hala. Hljóðbókin Þjóðsögur af Ströndum er væntanleg í haust, en kaupa má fyrri bækur hjá Kómedíuleikhúsinu eða í vefbúðinni MagiCraft.