05/05/2024

Grettishátíð um verslunarmannahelgina

Á Bjargi - ljósm. SögusmiðjanGrettishátíð verður haldin að Laugarbakka í Miðfirði um verslunarmannahelgina 1.-4. ágúst. Að þessu sinni er hátíðin helguð sagnaarfinum eða sagnalistinni. Dagskráin verður fjölbreytt alla helgina og sagðar sögur frá ýmsum löndum með ýmsum hætti. Grettisgarðurinn verður opinn öllum og verða þar sagnamenn, víkingar og handverksfólk. Ýmsir leikir fara fram, m.a. bogfimi, axarkast, grjótkast, fella og Grettiskúlugrip. 

Sagðar verða súpusögur og fótasögur og bakað brauð sem kallast Iljar Grettis. Í Grettisbóli og í Félagsheimilinu Ásbyrgi verða sýningar, fyrirlestrar og uppákomur. Hanna Margret Snorradóttir leikari og sagnakona, leiðir fólk inn í töfraheim sögunnar og kennir fólki að ferðast í sögu. Færeyskur danshópur skýrir dansinn út frá sögunni eða söguna út frá dansinum. Hilmar Agnarsson orgelleikari og kórstjórnandi tengir söguna við sönginn. Helgi Þór og hljóðfæraleikarnir syngja og leika sögur. Hljómsveitin Lexía hvetur fólk til þátttöku og segja sína sögu með fótunum. 

Á Bjargi verður kraftakeppni og er það Andres Guðmundsson kraftakall sem stjórnar aðgerðum. Hátíðin verður sett kl 18.00 föstudaginn 1. ágúst og stendur linnulítið fram til mánudags 4. ágúst, eins og nánar má fræðast um á www.grettistak.is.