02/05/2024

Fréttaritari RÚV á Ströndum tæknivæðist

Ríkisútvarpið hefur nú aukið fréttaþjónustu sína á Ströndum og tæknivætt fréttaritara sinn á staðnum svokölluðu nagra-upptökutæki sem nýtist við viðtöl á vettvangi. Fréttirnar eru síðan klipptar hér heima og sendar vestur á Ísafjörð eða suður til Reykjavíkur eftir því sem við á. Kristín Sigurrós Einarsdóttir, fréttaritari á Ströndum, segir það mikla breytingu til bóta að geta farið út á vettvang og tekið viðtöl, í stað þeirra vikulega pistla sem hafa verið aðalfréttaefnið frá Ströndum síðan hún hóf störf í júní í fyrra. Efnið klippir hún síðan í tölvu og sendir á Ríkisútvarpið: "Og ekki spillir að öll svona verkefni eru atvinnuskapandi á svæðinu."

Þeim sem missa af fréttum er bent á að þær má heyra hálfan mánuð aftur í tímann á vefnum www.ruv.is. Einnig má geta þess að á þriðjudaginn í síðustu viku var til dæmis bein útsending frá Hólmavík í þættinum Samfélagið í nærmynd, þar sem rætt var við Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur um leikritið Dýrin í Hálsaskógi og við Sigurð Atlason um Arnkötlu 2008 og fleiri verkefni.