22/12/2024

Helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum

Í fréttatilkynningu um helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt í síðustu viku. Árekstur varð í Bolungarvík á fimmtudeginum þar sem ekið var á kyrrstæða bifreið. Á laugardaginn varð árekstur á Hnífsdalsvegi við Eyrarmannalendingu en þar var bifreið ekið aftan á aðra. Um kl. 18:00 á sunnudeginum valt bifreið út af veginum um Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi. Bifreiðin var mikið skemmd eftir óhappið. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum.

Sex ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Þessir aðilar voru á ferð um Ísafjarðardjúp og Reykhólasveit.  Sá sem hraðast ók var mældur á 122 km. hraða.

Í vikunni voru þrjátíu og sjö ökutæki boðuð til skoðunar af lögreglu þar sem lögbundinni skoðun hafði ekki verið sinnt. Eigendur þessarar ökutækja fá sjö daga frest til að láta skoða ökutæki sín að öðrum kosti eru skráningarnúmer þeirra fjarlægð. Númer fjögurrra bifreiða voru fjarlægð þar sem áður veittur frestur  var liðinn. 

Einn ökumaður var stöðvaður fyrir meinta ölvun við akstur í Bolungarvík á miðvikudeginum. 

Lögreglumenn á Patreksfirði áttu annríkt á miðvikudeginum þegar hvassviðri gekk yfir svæðið. Bátar losnuðu frá bryggju og járnplötur fuku af húsum. 

Á laugardagskvöldinu leysti lögregla á Ísafirði upp unglingasamskvæmi þar sem unglingar undir lögaldri voru samankomin í eftirlitslausu samkvæmi þar sem áfengi var haft um hönd. Þessum aðilum var komið í hendur forráðamanna. Starfsfólk Skóla og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar kom að málinu og tekur síðan við framhaldsmeðferð þess.

Eitt fíkniefnamál kom upp á Ísafirði í vikunni þegar lítilræði af kannabisefnum fannst á ungum manni við leit á honum og í bifreið hans.

Aðfaranótt sunnudagsins var tilkynnt um meðvitundarlausan mann á Silfurtorgi á Ísafirði. Viðkomandi var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús. Í ljós koma að þarna hafði komið til átaka á milli manna og var einn aðili handtekinn og vistaður í fangageymslum í framhaldinu vegna rannsóknar málsins. Gert var að sárum þess sem fluttur var á sjúkrahús og var hann útskrifaður daginn eftir.

Á sunnnudagskvöldinu kl.20:55 barst tilkynning um að bátur með fjórum mönnum hafi steytt á skeri við Reykjanes í Ísafjarðardjúpi og var kominn leki að bátnum. Björgunaraðilar voru kallaðir út á svæðinu og  björgunarbáturinn Gunnar Friðriksson var sendur af stað frá Ísafirði og bátum í nágrenninu gert aðvart. Einnig var björgunarþyrla ræst út. Bátur frá staðarhöldurum í Reykjanesi bjargaði síðan mönnum úr gúmmbjörgunarbáti um kl. 22:11 og hafði þeim ekki orðið meint af volkinu. Þá hafði báturinn sem strandaði,  Þjótandi SU-18, lagst á hliðina við skerið. Báturinn Sædís ÍS sem kom með ásamt björgunarmönnum frá Bolungarvík, dró Þjótanda af strandstað og dró hann síðan til hafnar á Ísafirði.  Þjótandi maraði í kafi alla leið  en komið var með bátinn til hafnar um kl. 04:42.