29/04/2024

Síldarverksmiðjan í Djúpavík meðal merkilegustu mannvirkjanna

Samkvæmt frétt á mbl.is voru sjö merkilegustu mannvirki Vestfjarða útnefnd á fundi sérvalinnar dómnefndar um helgina. Síldarverksmiðjan í Djúpavík er eitt af þeim mannvirkjum sem talin eru í hópi þeirra sjö merkilegustu á Vestfjarðakjálkanum og kemur ekki á óvart. Um 70 mannvirki voru tilnefnd, en auglýst var eftir tilnefningum frá almenningi í sumar. Það vekur væntanlega einnig sérstaka athygli Strandamanna að dómnefnd hefur við vinnu sína slitið Bæjarhrepp á Ströndum frá Vestfjarðakjálkanum og segir mörk kjálkans liggja milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Mannvirki í Bæjarhreppi hafa því ekki komið til greina í keppninni.

Í frétt mbl.is segir að við vinnu dómnefndar hafi ekki verið tekið tillit til fjölda tilnefninga um einstök mannvirki heldur reynt að leggja efnislegt mat á hvert mannvirki fyrir sig. Til viðbótar hafi svo komið nokkrar tilnefningar frá þeim sem sátu í dómnefndinni. Þar var ekki síst um að ræða mannvirki sem rétt þótti að hafa á heildarlistanum þó að ljóst mætti vera að þau kæmust ekki í hóp þeirra sjö útvöldu.

Á næstu dögum verður gengið frá ítarlegri greinargerð um þau mannvirki sem valin voru og jafnframt um starf dómnefndar og þær forsendur sem liggja að baki valinu. Jafnframt verður gefinn út bæklingur um þessi mannvirki.

Sjö merkilegustu mannvirki Vestfjarðakjálkans eru að mati dómnefndar:

» Síldarverksmiðjan í Djúpavík
» Jarðgöngin á Arnarnesi við Ísafjarðardjúp
» Gamla sjúkrahúsið (Safnahúsið) á Ísafirði
» Garðurinn Skrúður við Núp í Dýrafirði
» Vegurinn út í Svalvoga (Kjaransbraut)
» Mannvirki Samúels Jónssonar í Selárdal
» Þorpið í Flatey á Breiðafirði