28/03/2024

Kosið til Alþingis í dag

Kosið er til Alþingis í dag og er víðast hvar búið að opna kjörstaði. Í fréttum Svæðisútvarps Vestfjarða í gær kom fram að kjörstaður á Drangsnesi opnar kl. 10:00 og á Borðeyri kl. 12:00. Í dreifimiða sem borinn var í hús í gær frá Kjörstjórn Strandabyggðar kemur fram að kosning hefst kl. 11:00 á Hólmavík og stendur til 18:00 í Grunnskólanum á Hólmavík, "þó sbr. 89.gr. laga nr. 15/2003", eins og segir á miðanum. Vilji einhver vita hvað þetta þýðir þá vill svo vel til að lagasafnið má finna á netinu og gildandi lög um kosningar til Alþingis frá árinu 2000 með síðari tíma breytingum má finna hér. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur lesendur til að nýta kosningaréttinn.

Á mbl.is segir að um upphaf og lok kjörfundar gildi þær reglur að kjörstaðir skuli opnaðir á bilinu 9–12 árdegis og skuli sveitarstjórn eða yfirkjörstjórn auglýsa nákvæma tímasetningu með hæfilegum fyrirvara. Meginreglan við lok kjörfundar sé að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Frá þessari meginreglu sé þó sú undantekning að atkvæðagreiðslu megi slíta ef allir sem eru á kjörskrá hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal þó slitið eigi síðar en kl. 22 á kjördag.