23/04/2024

Heiða sigraði dægurlagakeppni á Króknum

Strandakonan og Idolstjarnan Heiða sigraði dægurlagakeppni á Króknum í gærkvöldi. Keppnin sem fór fram fyrir troðfullu íþróttahúsi þeirra Sauðkrækinga, hefur um margra ára skeið verið fastur liður í Sæluvikuhaldi Skagfirðinga. Lagið sem Heiða flutti heitir Glæður og er eftir Trausta Bjarnason en textann gerði Ragnhildur Bjarnadóttir. Helga Möller flutti lagið Lófaeiður sem var í öðru sæti en í þriðja sæti hafnaði lagið Kominn aftur í flutningi Kristjáns Gíslasonar. Heiða var einnig valin besti flytjandinn. Þetta er annað árið í röð sem Heiða sigrar keppnina. Stemmingin var gríðarleg á Króknum og eftir keppnina var slegið upp stórdansleik með hljómsveit Geirmundar og Von. Myndir og umfjöllun um keppnina er að finna á skagafjordur.com.