29/05/2024

Sigvaldi tryggði sér Íslandsbikarinn

.Sigvaldi Magnússon á Stað í Steingrímsfirði hefur tryggt sér Íslandsbikarinn í samanlagðri stigakeppni Íslandsgöngunnar. Sigvaldi var þriðji í mark í 50 km göngu í Fossavatnsgöngunni sem fram fór í gær. Að þessu sinni kepptu tuttugu og fjórir Strandamenn og auk Sigvalda voru fimm aðrir Strandamenn sem höfnuðu í verðlaunasætum.

Guðrún Magnúsdóttir varð í 2. sæti í 20 km göngu, Björk Ingvarsdóttir í 3.sæti í 7 km göngu, Þórhallur Aron Másson, Kristján Páll Ingimundarson og Ólafur Orri Másson röðuðu sér í þessari röð í verðlaunasætin í 7 km göngu. Þessir piltar urðu einnig í 1. sæti í sveitakeppni í 7 km göngu. Þær Erna Dóra Hannesdóttir, Jóhanna Guðbjörg Rósmundsdóttir og Björk Ingvarsdóttir urðu í 3. sæti í sömu keppni. Þá varð sveit Strandamanna í 3. sæti í sveitakeppni í 50 km göngu (samanlagður tími) en sveitina skipuðu Sigvaldi Magnússon, Ragnar Bragason og Magnús Steingrímsson.
Keppendur í Fossavatnsgöngunni voru um 170 og talið að um sé að ræða fjölmennustu skíðagöngu sem fram hefur farið á Íslandi. Var hún jafnframt síðasta gangan í Íslandsgöngunni. Til gamans hefur verið lagður saman km fjöldi hvers félags í Íslandsgöngunni í vetur. Mjótt var á mununum eftir Strandagönguna um daginn en Ísfirðingar hafa forystu. Líklegt er að Strandamenn komi á hæla þeim, en endanlegir útreikningar ættu að liggja fyrir á næstu dögum. Úrslit Fossavatnsgöngunnar er að finna á www.snjor.is.