15/04/2024

Gvendarbrunnur – aðstaða í Þróunarsetrinu á Hólmavík

GvendarbrunnurÞróunarsetrið á Hólmavík og Strandabyggð hafa tekið höndum saman um verkefni sem fengið hefur nafnið Gvendarbrunnur. Það snýst um að útvega námsmönnum og öðrum sem eru að vinna við náms- eða nýsköpunarverkefni, þróunar- eða rannsóknarverkefni, endurgjaldslausa skrifstofuaðstöðu í Þróunarsetrinu á Hólmavík um lengri eða skemmri tíma í sumar. Námsver og lausar skrifstofur verða nýttar undir starfsemi Gvendarbrunnsins. Fræði- og námsmönnum í margvíslegum greinum gefst tækifæri til að sækja um aðstöðu og senda þá stutta umsókn þar sem dvalartíminn og verkefnið er útskýrt til Jóns Jónssonar menningarfulltrúa Vestfjarða á menning@vestfirdir.is.

Nafn verkefnisins er sótt í sögu Stranda og örnefni í nágrenninu. Í landi Kálfaness þar sem Hólmavíkurþorp stendur er Gvendarbrunnur. Hann var vígður af Guðmundi biskup Arasyni eins og aragrúi af öðrum uppsprettum, brunnum, lindum, lækjum, laugum, klettum og skriðum á Ströndum. Varð vatnið í Gvendarbrunni í Kálfanesi svo heilagt að það mátti bera það í línhúfu yfir Steingrímsfjörð án þess að hún læki, eftir því sem fram kemur í Biskupasögum. Var vatnið meðal annars notað í lækningaskyni og til að glíma við erfiðustu drauga og forynjur fyrr á öldum.

Það er von aðstandenda Gvendarbrunnsins í Þróunarsetrinu á Hólmavík að framtakið verði í framtíðinni uppspretta fyrir margvísleg nýsköpunar- og rannsóknarverkefni sem sum hver tengjast Ströndum – sögu, byggð og atvinnulífi.