27/04/2024

Grímseyjarsund og fuglahræðukeppni á Bryggjuhátíð

Bryggjuhátíð á Drangsnesi verður haldin þann 18. júlí næstkomandi og undirbúningur að komast á gott skrið.  Á síðasta ári var fyrsta fuglahræðukeppnin haldin og tókst glimrandi vel. Margar reglulega skemmtilegar fuglahræður skreyttu þorpið. Vonast aðstandendur Bryggjuhátíðar eftir að þær verði enn fleiri í ár. Auk hefðbundinna Bryggjuhátíðaratriða er ætlunin að bjóða sjósundgörpum að þreyta Grímseyjarsund. Það hefur aldrei svo vitað sé nokkur maður synt frá Grímsey í land á Drangsnesi en þetta mun vera  um ein sjómíla af köldum sjó.

Tímasetning á sundinu verður að vera í samráði við sjávarföll og staðkunnuga sjómenn sem þekkja Grímseyjarsundið vel og hvernig straumar liggja.

Björgunarsveitin Björg á Drangsnesi mun verða sundgörpum til aðstoðar á sundinu en gert er ráð fyrir að þeir komi að landi í fjörunni fyrir neðan sundlaugina.