Categories
Frétt

Þróunarsetrið stendur fyrir fundarherferð um atvinnu- og menningarmál

Frá HólmavíkÞróunarsetrið á Hólmavík hyggst standa fyrir opnum súpufundum á fimmtudögum í
vetur fram á vor. Þar munu fulltrúar stofnana og fyrirtækja á Ströndum, stórra
og smáa, í hverskyns rekstri kynna starfsemi sína fyrir íbúum svæðisins. Fyrsti
fundurinn verður næstkomandi fimmtudag á Café Riis á Hólmavík þar sem verkefnið verður
kynnt. Jafnframt verða fengnir valinkunnir aðilar til þess að vera með erindi um
atvinnu- og menningarmál. Með því að tefla fram fjölda ólíkra aðila á Ströndum
sem koma að atvinnu- og menningarlífi er ætlunin að virkja betur þann
sköpunarkraft sem finnst í fólki og stuðla að því að meiri skilningur ríki innan
samfélagsins milli ólíkra greina. Stefnt er að því að fyrstu helgina í júní,
dagana 6.-8. júní verði blásið til heilmikillar atvinnu- og
menningarmálasýningar í Félagsheimilinu á Hólmavík þar sem fjöldi aðila á
Ströndum sem koma að atvinnumálum eða menningarmálum með einu eða öðru móti
kynni starfsemi sína og framtíðaráform. Sú sýning yrði síðan upp allt sumarið
fyrir gesti og gangandi sem fá þar tækifæri til að kynnast fjölbreyttu atvinnu-
menningar- og mannnlífi á Ströndum.

Í Þróunarsetrinu á Hólmavík eru til húsa stofnanir og fyrirtæki sem vinna að
margvíslegum verkefnum á sviði menntunar, rannsókna og menningarmála. Verkefnin
sem unnin eru þar eru gjörólík eldri hefðum sem fyrirfinnast í atvinnulífi á
Ströndum og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Það getur skipt miklu máli
fyrir búsetu og mannlíf á Ströndum í framtíðinni að íbúar svæðisins séu meira
meðvitaðir um hvaða starfsemi fer fram innan einstakra byggðarlaga og getur
stuðlað að meiri samheldni út á við. Því er mikilvægt fyrir alla íbúa svæðisins
að ólíkar atvinnuvegir vinni saman að ákveðnum markmiðum og kynnast þar með
starfsemi hvor annarra. Það er oft álitið að byggðalög af þeirri stærðargráðu
sem finnast á Ströndum nái ekki að nýta alla þá kosti sem menn sækjast eftir í
dreifbýli og hafi ekki í nægum mæli þá kosti sem fólk sækist eftir í þéttbýli,
þ.e. fjölbreytni atvinnulífs, menningar og afþreyingar, hagstætt verðlag og
framboð á þjónustu. Því getur það verið afar mikilvægt að sem flestir aðilar
komi að verkefni sem stuðlar að kynningu á allra handa starfsemi, ekki síður inn
á við en út á við. Ekki síst er það talið mikilvægt á þessum tímum þegar nánasta
framtíð virðist ekki vera björt, að fólk taki höndum saman og vinni að
sameiginlegum markmiðum og sýni fram á að búseta á Ströndum sé góður kostur bæði
í nútíð og nánustu framtíð.

Menningarstarfsemi og atvinnustarfsemi sem
byggir á auðlindum lands og sjávar, menntun og þekkingu, fræðum og rannsóknum,
samfélagsþjónustu, verslun, þjónustu og iðnaði verður í brennidepli og jafnframt
fengnir valinkunnir aðilar til þess að vera með erindi um atvinnu- og
menningarmál.

Á næstu dögum mun Sigurður Atlason fyrir hönd Þróunarsetursins hafa samband við forsvarsmenn fyrirtækja
og stofnana á Ströndum og hvetja til þátttöku. Allir íbúar á Ströndum eru
hvattir til að mæta á fundina og taka þátt í verkefninu. Allar frekari
upplýsingar er hægt að nálgast hjá Sigurði í netfanginu galdrasyning@holmavik.is eða í síma
897 6525.

Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík er einn fjölmennasti vinnustaðurinn á Ströndum