26/04/2024

Gráskeggur kominn af fjalli

Gráskeggur er kominn af fjalli, bara nokkuð brattur og orðinn 56 kíló, þótt æfin væri svolítið erfið í vor. Móðir hans fékk júgurbólgu og varð einjúgra og bróðir hans varð heimalningur því Gráskeggur var frekur og taldi sig eiga heila spenann einn. Gráskeggur komst á síður strandir.saudfjarsetur.is í vor þegar María Lovísa  var að óska honum góðrar ferðar í sumarhagana svo það taldist vera við hæfi að smella mynd af þeim við endurfundina. María notaði tækifærið til að rétta honum aukatuggu sem virðist vera vel þegin. Hvorugt þeirra rennir þó grun í að nú er farið að styttast í endalokin hjá Gráskegg, en fyrir nokkru er upp runninn “Sláturmánuður”, en svo mun Guðbrandur Þorláksson biskup hafa kallað októbermánuð.

Í sláturtíðinni endar lífshlaup flestra lambanna sem fæddust í vor. Þetta er eitt af því óhjákvæmilega, þó mörgum sé það nokkuð þung raun að vera í dómarasæti þegar ákveða skal hvaða lömb skuli “sett á” og hver skuli fara í sláturhúsið.
 
Fyrir börnin er það oft og tíðum erfitt þegar lambið þeirra sem er svo fallegt og gott fær ekki að lifa áfram og sjálfsagt falla oft tár  þegar ákvörðun liggur fyrir. Við þessu er fátt að gera og betra að öllum séu ferðalokin ljós, börnum sem fullorðnum, frekar en að vera með eithvað pukur og ótrúverðugar sögur um hvert ferðinni sé heitið hjá lambinu eða kannski gæludýrinu sem verður að lóga. Þá er ávallt eðlilegt og best að segja börnunum rétt frá og ekki væri úr vegi að  rifja upp röksemdir Valdísar Þórðardóttur frá Klúku þegar bændur voru sakaðir um mannvonsku að senda í sláturhús saklaus lömbin. Hún sagði að þó æfi lambsins væri stutt   þá ætti það þó heilt sumar frjálst og áhyggjulaust  í gleði og leik úti í haganum græna. Ef það gæti tjáð sig mundi það örugglega ekki vilja missa af ánægjulegri æfi þótt stutt væri.

Ástæða þess að ég er að nefna þessa hluti hér er að mér líkar illa þegar verið er að blekkja börnin og segja  þeim að t.d. kettlingarnir séu að fara austur eða vestur, því þar sé lítil stúlka eða drengur sem langar í lítinn kettling. Svo kemst barnið að því nokkru seinna, kannski strax, að kettlingnum var einfaldlega lógað og áfallið verður hastarlegra, heldur en ef barninu er sagt satt  á mildan hátt  og ástæðurnar jafnframt skýrðar vel fyrir viðkvæmri sál. Þessi  mögulegi endir á líka að vera ljós og útskýrður í uphafi þegar gæludýr er tekið á heimilið.

María Lovísa og Gráskeggur í vor.

María Lovísa réttir Gráskeggi tuggu – ljósm. Guðbrandur Sverrisson