29/05/2024

Gluggar í rykugar skræður í Köben

Magnús Rafnsson sagnfræðingur á Bakka í Barnarfirði situr nú í kóngsins
Kaupinhöfn og nýtur þess að hafa fengið styrk til fræðistarfa frá Den
Arnamagneanske Commission. Magnús hefur notað tímann til að leita frekari
upplýsinga um galdraskræðurnar sem MA-ritgerð hans við Háskóla Íslands fjallaði
um. Ekki segist hann hafa rekist á neitt alveg óvænt en samt sé alltaf öðruvísi
að skoða handritin sjálf en að byggja á lýsingum annara. Stór hluti af
handritunum er reyndar kominn til Íslands en sitthvað merkilegt er þó enn í
Kaupmannahöfn sem alþýðumenn settu á blað á fyrri öldum.

Hvalveiðarnar á sautjándu öld eru að sjálfsögðu einnig ofarlega í huga Magnúsar
og þá er bókasafn Árnastofnunar í háskólabyggingunum við Njálsgötu á Amager ekki
amaleg náma til að leita í bókum um íslenska sögu og menningu þótt rannsóknir á
fornritunum hafi alla tíð verið efst á baugi hjá stofnuninni. Enn er samt
furðulegt hvað hvalveiðar útlendinga á Ströndum eru fyrirferðalitlar í
heimildum. Samt virðist alveg á hreinu að á meðan verslun við útlendinga var
harðbönnuð hefur launverslun verið stunduð víða á Ströndum og heimamönnum ekki
þótt það tiltökumál.

Árnasafn er ekki eini staðurinn sem Magnús hefur
setið á því á Konunglega bókasafninu er einnig töluvert af íslenskum handritum.
Þar er hann nú að skoða teikningar sem gerðar voru á áttunda tug 18. aldar þegar
Ólafur Ólavius var að leita hentugum stöðum til að reisa hafnir. Olavius gerði
riss af þessum stöðum og eftir þeim teiknaði Sæmundur Hólm síðan kort af
Hólmarifsvík, eins og hún hét þá, Skeljavík og Reykjavík, sem nú heitir
Hveravík. Á kortinu af Hólmarifsvík eru merktar inn tóftir þar sem
sýslumannsbústaðurinn er nú og spottakorn þaðan leifar af völundarhúsi sem
Ólafur Olavius lýsti í ferðabók sinni. Á morgun þann 21. nóvember mun Magnús svo
flytja fyrirlestur í stofnuninni um Strandir, Galdrasýninguna, rannsóknir sínar
á galdrabókum og fornleifauppgröftinn á Strákatanga.