19/07/2024

Gerir sérstaka galdrafonta

Apostolos Syropoulos heitir Grikki nokkur og er einn fjölmargra erlendra gesta sem heimsóttu Galdrasýningu á Ströndum á liðnu sumri. Þegar hann sneri heim til Grikklands eftir dvöl sína á Íslandi þá sendi hann Strandagaldri bréf þar sem hann lýsti ánægju sinni og gleði með heimsókn sína og bauðst til að gera sérstaka tölvufonta með galdrastöfum og rúnum, en leturgerð fyrir tölvur er eitt áhugamála hans. Síðan þá hefur hann unnið í frístundum sínum að verkefninu. Í gær barst Strandagaldri síðan endanlegt útlit til yfirferðar áður en hann lýkur verkefninu endanlega. Það styttist því í það að fonturinn (letrið) verði aðgengilegur öllum til að hlaða niður í tölvur sínar beint af heimasíðu Galdrasýningar á Ströndum. Hægt verður að velja um að hlaða niður TrueType pakka, LaTeX pakka eða PostScript fontum endurgjaldslaust.