28/03/2024

Galdrasýningin fimm ára

Í dag eru fimm ár síðan Galdrasýning á Ströndum opnaði fyrsta áfanga sýningarinnar á Hólmavík í endurgerðum pakkhúsum Kaupfélagsins við Höfðagötu. Mikil opnunarhátíð var haldin í tilefni dagsins en Sturla Böðvarsson samgönguráðhera opnaði sýninguna formlega. Yfir 30.000 manns hafa heimsótt sýninguna frá upphafi en aðsókn að henni hefur verið vonum framar. Seinna í sumar opnar síðan annar áfangi galdrasýningarinnar, Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði. Aðsókn að Galdrasýningu á Ströndum í sumar hefur farið mjög vel af stað en um 40% aukning gesta hefur verið að sýningunni miðað við sama tíma í fyrra.


 Í gestakönnun sem lá frammi á sýningunni síðasta sumar kom fram að vel yfir 90% gesta hefðu áhuga á að heimsækja seinni áfanga sýningarinnar í Bjarnarfirði og Trékyllisvík þegar þeir opna. Gera má því ráð fyrir að á komandi árum verði fjölmargir ferðamenn sem leggi leið sína á Strandir á ný.

Þann 2. júlí næstkomandi verður opnaður lítill sýningarsalur til viðbótar á Hólmavík en þar verður til sýningar og varðveislu merkur gripur sem fannst nýverið í Goðdal í Bjarnarfirði og tengist heiðnum sið. Allsherjargoði ásamt Vestfjarðagoða og Norðurlandsgoða munu opna þann hluta formlega með heiðnu blóti í Galdragarðinum í tilefni af afmæli Galdrasýningar á Ströndum.