18/09/2024

Troðfullt á tónleikum

Kirkjan var troðfull á tónleikum þeirra Jóns Ólafssonar og Hildar Völu á Hólmavík nú í kvöld. Tónleikarnir, sem voru öðrum þræði upphitun fyrir Hamingjudagana, tókust feikilega vel og yljaði tónlistarfólkið gestum um hjartarætur með notarlegri tónlist í rúmlega einn og hálfan tíma. Stemmningin var góð og ekki spillti fyrir að veðrið var fallegt og hægt að gleyma sér við fagurt útsýnið út um kirkjugluggana meðan tónlistin ómaði. Margir hafa eflaust verið farnir að bíða eftir að Jón Ólafsson settist við flygilinn góða sem kirkjan keypti fyrir söfnunarfé fyrir örfáum árum, en Jón hefur ekki spilað hér um slóðir síðan hann kom fram í Skeljavík árið 1987.

Unga kynslóðin og fólk á öllum aldri fjölmennti til að sjá gest kvöldsins, Hildi Völu, enda hafði hún í nógu að snúast að gefa eiginhandaráritanir. Menningarmálanefnd færði gestunum góðu þakklætisvott í lok tónleikanna.

Ljósm. Gunnar Logi Björnsson