01/05/2024

Kynningarfundur um Arnkötludal

Í fréttatilkynningu frá Skipulagsstofnun kemur fram að kynningarfundur um matsskýrslu um umhverfiáhrif lagningar vegar um Arnkötludal og Gautsdal verður haldinn á vegum Leiðar ehf miðvikudaginn 29. júní milli kl. 20.00 og 22.00 á Café Riis á Hólmavík. Þar gefst öllum kostur á að kynna sér framkvæmdina. Jafnframt er auglýst eftir skriflegum athugasemdum við skýrsluna fyrir 3. ágúst 2005. Stefnt er að því að ákvörðun Skipulagsstofnunar liggi fyrir 31. ágúst. Fréttatilkynningin fer hér á eftir:

„Þann 6. júní 2005 barst Skipulagsstofnun matsskýrsla Leiðar ehf. vegna mats á umhverfisáhrifum lagningar vegar um Arnkötludal og Gautsdal í Hólmavíkurhreppi og Reykhólahreppi.  Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir. Hægt er að óska eftir eintökum af tillögunni hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166 í Reykjavík.  Einnig er hægt að nálgast tillögu að matsáætlun á heimasíðum Leiðar ehf og Náttúrustofu Vestfjarða: www.leid.is og www.nave.is.

Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 3. ágúst 2005 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Þar fást ennfremur nánari upplýsingar um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun hefur leitað umsagnar  Hólmavíkurhrepps, Reykhólahrepps,  Fornleifaverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar og veiðimálastjóra.

Stefnt er að því að ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun muni liggja fyrir 31. ágúst 2005."