24/07/2024

Galdraspilið Galdur

Galdraspilið GaldurUndanfarin tvö ár hefur verið í þróun og vinnslu borðspilið Galdur hjá Galdrasýningu á Ströndum. Grundvallarhugmynd spilsins er tilbúin og spilið getur farið í útgáfu strax þegar heppilegur samstarfsaðili um útgáfuna finnst. Stefnt er að því að finna útgefanda á spilinu erlendis svo um stærri markað verði að ræða og að nýta útgáfu þess sem markaðssetningartæki fyrir verkefni Strandagaldurs.

Spilið Galdur er byggt upp á kubbum og spilaborði og galdurinn í leiknum og markmið hans er að finna þrennu á spilaborðinu sem er samsett úr þremur mismunandi galdrastöfum, þremur mismunandi áferðum og þremur mismunandi litum og fjarlægja af borðinu á undan öðrum spilurum og safna þar með sem flestum galdrastöfum. Sá verður galdrameistari sem nær flestum stigum í lok leiks.

Galdur er ekki bundinn við neitt sérstakt tungumál og það er tiltölulega einfalt að þýða leikreglurnar yfir á öll tungumál þar sem markaður er mögulega fyrir hendi.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur spilið verið í prófunum hér á landi ásamt í Noregi og Þýskalandi og vekur hvarvetna mikla lukku og vonast er til að útgefandi á spilinu finnist á næstunni. Endanlegri útlitshönnun á spilinu er ekki lokið, en það verður ákveðið í samráði við útgefandann sem hreppir hnossið.

Höfundur Galdurs er Sigurður Atlason, en hann segir að óskastaðan yrði ef íslenska orðið galdur næði jafnmikilli útbreiðslu og orðið Geysir erlendis og að haldin verði heimsmeistaramót í Galdri.

Ljósmyndirnar hér að neðan eru frá prófunum í Osló og sýnir glöggt að spilarar eru niðursokknir í þrautina og skemmta sér vel.

Niðursokknir spilarar í Oslo

Niðursokknir Galdraspilarar í Oslo.

Galdrameistari Oslo telur stigin sín

Galdrameistari Osloborgar telur stigin sín