19/04/2024

Frímerkin kláruðust á pósthúsinu

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki um allt land og þar eru Strandir engin undantekning. Oft er meira að gera en venjulega á ýmsum vinnustöðum í þessum mánuði, en líklega finnur póstþjónustan einna mest fyrir auknu álagi – enda óteljandi tonn af kortum og bögglum sem fara um landið þessa síðustu daga fyrir jól. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is kíkti inn í Sparisjóð Strandamanna og Íslandspóst á Hólmavík, en þar var enn nóg að gera þó starfsfólk segði mestu törnina vera yfirstaðna. Haft var á orði að mun meira hafi verið sent af pósti nú heldur en undanfarin ár. Þessi aukning á póstsendingum gæti að sögn starfsmanna falist í því að fólk sé aftur farið að skrifa jólakortin og senda þau í pósti í staðinn fyrir að senda þau á rafrænan hátt.

Aukningin sést kannski best á því að frímerkin, sem jafnan er nóg til af fyrir jólatörnina, kláruðust á miðvikudaginn sem var síðasti öruggi skiladagur á korta- og bögglasendingum innanlands, og um tíma var almennur frímerkjaskortur á landinu öllu. Nú er nóg til af glóðvolgum frímerkjum á pósthúsinu og enn er hægt að setja jólakort í póst, þó býsna litlar líkur séu á að þau berist viðtakanda í tæka tíð. Þeir sem ekki hafa náð að senda kortin geta þá alltént sent áramótakveðju.

Rétt er að ítreka að pósthúsið verður opið á morgun, Þorláksmessu, frá kl. 14-16. Lokað verður á aðfangadag,en bögglar verða þó bornir út á Hólmavík þann dag. Þann 2. janúar 2007 verður lokað hjá Sparisjóðnum og Íslandspósti.

Pósthúsið

Þorbjörg og Svanhildur standa í ströngu.

Sumir pakkarnir eru stærri en aðrir. Þessi var vel merktur innihaldinu og var því litaður rauður áður en myndinni var skellt á netið.

frettamyndir/2006/580-jolapostur2.jpg

Sjálfsagt þurfa einhverjir að hækka yfirdráttinn eftir jólagjafakaup, Inga sér um það.

frettamyndir/2006/580-jolapostur4.jpg

Enn er talsvert að gera við afgreiðslu á kortum og bögglum.

Ljósm. Arnar Jónsson