22/12/2024

Framkvæmdir á Drangsnesi

Undanfarið hafa staðið yfir miklar framkvæmdir við nýja sundlaug á Drangsnesi. Sundlaugin sjálf er komin upp að mestu leyti, þó eftir sé að ganga frá dælubúnaði og dúk. Þá er stefnt að því að búið verði að loka þjónustuhúsinu við laugina fyrir jól, en Grundarás vinnur að því verki.

Sundlaugarhúsið er 250 fermetrar, starfsmannaaðstaða, afgreiðsla, búningsklefar, þreksalur og herbergi sem gæti t.d. hentað fyrir nuddara eða sjúkraþjálfun. Dælubúnaður er í kjallara. Við sundlaugina verður heitur pottur og buslulaug, en laugin sjálf er 12,5×8 metrar að stærð. Kringum hana er upphituð stétt.