19/09/2024

Rækjusýning á Hólmavík

Verður rækjan nýjasta menningarverkefni Strandamanna?Nokkrir áhugamenn um sögu rækjuveiða og vinnslu á Hólmavík hafa undanfarið rætt þá hugmynd að setja upp sýningu um rækjuna á Hólmavík. Tilefnið er að 40 ár eru liðin frá því að rækjuútgerð hófst frá Hólmavík, en rækjuveiðar hófust þaðan árið 1965.

Grunnhugmynd verkefnisins er að setja upp nokkuð umfangsmikla útisýningu á hafnarsvæðinu og á svæðinu framan við Galdrasýningu á Ströndum ásamt því að tengja sýninguna við rækjuvinnslu Hólmadrangs. Stór skilti og rækjuveiðamunir væru uppistaða sýningarinnar sem ætti að gefa góða hugmynd um helstu afkomu íbúanna á staðnum um langt árabil. Einnig eru hugmyndir að halda Rækjuhátíð í byrjun sumars sem gæti verið vísir að bæjarhátíð á Hólmavík.

Rækjubáturinn Hilmir ST-1 sem hefur staðið við Hólmann um árabil fengi hlutverk í verkefninu, en hópurinn er almennt sammála um að annað tveggja þurfi að gera – að taka bátinn í gegn og gera hann að bæjarprýði ellegar láta hann hverfa.

Fundur um þetta málefni verður boðaður innan fárra vikna.

.

Hugmyndir um staðsetningu Rækjusýningarinnar er að hún verði á hafnarsvæðinu framan við Galdrasýningu á Ströndum, sem nú er búið að tyrfa og gera eftirsóknarvert, og að sýningin teygi sig að Hilmi St-1 sem hefur staðið þar fáum til yndisauka til fjölda ára.