20/04/2024

Framkvæmdaáætlun Bæjarhrepps tekin fyrir

Á fundi hreppsnefndar Bæjarhrepps í janúar var áætlun um framkvæmdir á árinu 2007 til umræðu. Bæði var rætt um þau verkefni sem hafin voru og ný verkefni. Meðal þess sem stendur til að framkvæma á árinu er að ljúka niðursetningu á rotþróm og siturlögnum, ljúka sparkvelli við Grunnskólann á Borðeyri og byggja fjárrétt á Stóru-Hvalsá. Eins er í skoðun hitaveita frá borholu við Laugarmýri og til stendur að mæla upp og endurskoða öll lóðamörk á Borðeyri, gera nýtt deiliskipulag þar og ganga frá lóðasamningum.


Eins stendur til á árinu að hefja vinnu við lóð Grunnskólans á Borðeyri eftir nýju skipulagi og einnig verði skólahúsið sjálft skoðað af innanhúsarkitekti til að meta möguleika á aukna nýtingu hússins. Þá stendur til að koma upp söfnunargámum fyrir járn- og timburúrgang á Borðeyri við Sorpsamlag Strandasýslu. Miklar umræður urðu um þessa framkvæmdaáætlun, tímasetningar og útfærslu  á fundi hreppsnefndar.