15/04/2024

Frá fjórðungsþingi

Ný stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga var kosin á nýafstöðnu 51. fjórðungsþingi. Anna Guðrún Edvardsdóttir frá Bolungarvíkurkaupstað var kosin formaður, en aðrir í stjórn eru Ingi Þór Ágústsson frá Ísafjarðarbæ, Guðni Geir Jóhannesson frá Ísafjarðarbæ, Jón Hákon Ágústsson frá Vesturbyggð og Valdemar Guðmundsson frá Strandabyggð. Ný stjórn á eftir að koma saman og skipta með sér verkum.

Í varastjórn voru kosin þau Svanlaug Guðnadóttir frá Ísafjarðarbæ, Gísli Halldór Halldórsson frá Ísafjaðrarbæ, Ómar Már Jónsson frá Súðavíkurhreppi, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir frá Tálknarfjarðarhreppi og Egill Sigurgeirsson frá Reykhólahreppi.

Skoðunarmenn Fjórðungssambandsins, Ólafur B. Halldórsson og Guðmundur Steinar Björgmundsson voru endurkjörnir. Jafnframt voru fulltrúar í heilbrigðisnefnd endurkjörnir þau Jón Reynir Sigurvinsson, Kristján G. Jóakimsson, Kristján Arnarson, Jón Hörður Elíasson og Sigríður Karlsdóttir. Ragnheiður Hákonardóttir, Eysteinn Gunnarsson, Bragi G. Gunnarsson og Sigurbjörg Daníelsdóttir voru kosin fulltrúar Fjórðungssambandsins á aðalfund Landsvirkjunar.

Í fastanefnd Fjórðungssambandsins um samgöngumál voru kosnir þeir Jóhann Hannibalsson, Þórólfur Halldórsson, Már Ólafsson og Gústaf Jökull Ólafsson. Ný stjórn Fjórðungssambandsins kýs einn fulltrúa úr sínum röðum sem er jafnframt formaður nefndarinnar.

Á þinginu samþykktu sveitarstjórnarmenn fjölmargar ályktanir t.a.m. um að fela stjórn Fjórðungssambandsins að óska eftir tilnefningum í Menningarráð Vestfjarða í samræmi við drög að menningarsamningi á milli vestfirskra sveitarfélaga og Menntamálaráðuneytisins. Nýtt menningarráð og Fjórðungssamband Vestfirðinga hafi það að markmiði að ljúka gerð menningarsamnings fyrir Vestfirði fyrir lok árs 2006. Jafnframt ítrekar þingið að stjórnvöld og Alþingi tryggi fjármagn til Menningarsamnings Vestfjarða á fjárlögum 2007.

Fjórðungsþing fól jafnframt stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga að kalla eftir tilnefningu sveitarstjórna á Vestfjörðum í starfshóp, sem vinni að undirbúningi svæðisskipulags fyrir Vestfirði. Svæðisskipulagið verði framtíðarsýn fyrir Vestfirði sem byggi á samspili nýtingar náttúru, þróunar efnahags og samfélags á grunni  sjálfbærrar þróunar.  

Fjórðungsþing samþykkti ályktun sem lýsir yfir andstöðu við þær hugmyndir sem fram koma í frumvarpi til nýrra skipulags- og byggingarlaga sem kveða á um að byggingarnefndir sveitafélaga skuli aflagðar.

Allar ályktanir Fjórðungssambandsins verða birtar á heimasíðu sambandsins innan fárra daga; www.fjordungssamband.is.