09/12/2023

Sparisjóðurinn færir út kvíarnar

Sparisjóður Strandamanna er í þann mund að opna starfsstöð í Reykjavík ásamt tveimur öðrum sparisjóðum, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Vestfirðinga. Um er að ræða samstarfsverkefni þessara þriggja sjóða. Ekki verður um hefðbundið útibú að ræða, heldur er ætlunin að starfsmaður sinni sérfræðiverkefnum fyrir sparisjóðina og einnig er ætlunin að auka þjónustu sjóðanna, með tíð og tíma, við núverandi viðskiptavini þeirra á höfuðborgarsvæðinu, sem og að afla nýrra.

Ráðinn hefur verið starfsmaður til að veita þessari starfsstöð forstöðu og er það Kristján Hjelm. Kristján er vel kunnugur sparisjóðafjölskyldunni, bæði sem starfsmaður og fyrrverandi sparisjóðsstjóri og nú síðast starfsmaður Sparisjóðabanka Íslands hf.

Starfsstöð sjóðanna hefur verið gefið nafnið SP-ráðgjöf. Samstarfssjóðirnir hafa fest kaup á húsnæði fyrir starfsemina, að Engjateigi 17-19.