15/04/2024

Flaggað í hálfa stöng

Fána Vegagerðarinnar á Hólmavík hefur verið flaggað í hálfa stöng og blasti við vegfarendum í morgun. Fullvíst má telja að með því sé verið að mótmæla frestun ríkistjórnarinnar á vegaframkvæmdum víða um land, en frestunin gæti bitnað einkar illa á Strandamönnum. Á Ströndum hafði verið ákveðið að bjóða út tvö stórverkefni nú í haust – veginn um Arnkötludal og breytingu á veginum um Hrútafjarðarbotn – og fjölmörg önnur mikilvæg verkefni í vegagerð bíða úrlausnar á svæðinu og hafa beðið lengi.

Einnig verða stórframkvæmdir í Mjóafirði við Djúp, á leiðinni milli Hólmavíkur og Ísafjarðar, væntanlega fyrir barðinu á frestunum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á framkvæmdum. Þykir Strandamönnum og Vestfirðingum mörgum hreint með ólíkindum að ekkert tillit sé tekið til mismunandi aðstæðna milli landssvæða í viðbrögðum ríkisins gegn þenslunni.

Flaggað í hálfa við Vegagerðina á Hólmavík – ljósm. Jón Jónsson