19/09/2024

Spennandi spurningakeppni í kvöld

Í dag hefjast Hamingjudagar á Hólmavík og í kvöld verður spennandi spurningakeppni í Félagsheimilinu á Hólmavík. Hefst skemmtunin kl. 20:00 og etja þar kappi harðskeytt lið Borgfirðinga, Dalamanna, Húnvetninga og Strandamanna. Spyrill og spurningahöfundur er Arnar S. Jónsson frá Steinadal. Í liði Strandamanna eru þrír kappar sem hafa sýnt góða takta af og til í keppni um Viskubikarinn undanfarin ár, Kristján Sigurðsson á Hólmavík, Þorvaldur Hermannsson (Tóti á Ósi) og Jón Jónsson á Kirkjubóli.

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is tók Jón Jónsson tali vegna keppninnar og sagði hann að keppnislið Strandamanna væri hvergi bangið þótt við mikla kappa úr nágrannahéruðunum væri að etja. „Þetta verður stórskemmtileg keppni trúi ég. Við gerum okkar besta, en það verður nú að segjast eins og er að maður hefur nú ekki legið yfir fréttatímunum liðnar vikur.“

„Við erum með ákveðna verkskiptingu í liðinu,“ segir Jón og bætir við: „Ég á að vita fullt af hlutum um drauga og tröll og þess háttar fyrirbæri, auk þess sem ég sérhæfi mig í að vita ýmislegt sem engu máli skiptir og það getur komið sér vel í spurningakeppnum. Tóti og Kristján búa hins vegar yfir ótrúlegum fróðleik um alla hluti sem skipta virkilega máli í tilverunni – vinsæla sjónvarpsþætti og sápuóperur, filmstjörnur, knattspyrnukappa og þungarokkara.“

Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir keppninni. Aðgangseyrir er 1.500.- fyrir 16 ára og eldri og eru kökur og kaffi innifalin í aðgangseyri. Mætum öll og styðjum okkar lið í skemmtilegri spurningakeppni.