22/12/2024

Fjöldi umhverfisstyrkja til Vestfjarða

Búið er að úthluta styrkjum úr Umhverfissjóði Ferðamálastofu og kom nokkuð af styrkjum til umhverfismála til verkefna á Vestfjörðum og Ströndum. Þannig fæst milljón til umhverfisbóta í Grímsey og er þar sérstaklega tiltekið þurrsalerni og göngustígar í eyjunni. Eins fæst milljón til að vinna í útisvæði Strandagaldurs umhverfis Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði. Þá kemur hálf milljón í styrk í náttúruskoðunarhús í Húsavík við Steingrímsfjörð og sama upphæð fæst til að bæta aðgengi að lendingarstað í Reykjarfirði nyrðri. Þá fást 200 þúsund í fuglaskoðunarverkefni við Kirkjuból í Steingrímsfirði.

Af öðrum verkefnum á Vestfjörðum má nefna að Ferðamálasamtök Vestfjarða fá 1,5 milljónir í gönguleiðakort um alla Vestfirði og Víkingaverkefnið um Gísla sögu Súrssonar fær milljón í söguskilti. Ferðamálafélag Reykhóla og Dala fær einnig 500 þúsund í gönguleiðakort.

Reykhólahreppur fær 150 þúsund í gerð göngustíga og merkingar vegna fuglaskoðunar og í Geirþjófsfjörð fæst 200 þúsund til stígagerðar á söguslóðir Gísla Súrssonar. Göngufélag Súðavíkur fær styrk upp á 50 þúsund til að gera göngubrú í botni Álftafjarðar og Ævintýradalurinn í Heydal í Mjóafirði fær 200 þúsund í að bæta aðgengi að náttúruupplýsingum.

Í Grunnavík fæst styrkur að upphæð 500 þúsund til að bæta aðgengi að lendingarstað og 400 þúsund fást í lendingabætur í Aðalvík, Hlöðuvík og Hornvík. Þá fást 300 þúsund til að koma upp hreinlætisaðstöðu á áningarstað í Hlöðuvík og Ísafjarðarbær fær milljón til að koma upp þurrsalerni í Hornvík.