15/04/2024

Tveir mánuðir í alþingiskosningar

Nú eru nákvæmlega tveir mánuðir í alþingiskosningar og má búast við að fjör fari að færast í kosningabaráttuna, með tilheyrandi fundahöldum, greinaskrifum, auglýsingum og dreifibréfum. Hér á vefnum strandir.saudfjarsetur.is ætlum við að setja allar fréttatilkynningar og greinar frá frambjóðendum og stuðningsmönnum framboða í hólf sem heitir Kosningar 2007 og hægt er að fara inn í tenglum hér til vinstri. Þeir sem áhuga hafa á þessum málum kíkja væntanlega reglulega þar inn.

Einungis þær pólitísku greinar sem tengjast beinlínis málefnum Strandasýslu og Strandamanna eða eru skrifaðar af Strandamönnum munu birtast á forsíðu vefjarins. Er vonandi að sú regla verði frambjóðendum hvatning til að velta málefnum svæðisins sérstaklega fyrir sér.

Fréttir af skoðanakönnunum og tilkynningar um fundahöld á Ströndum eru einnig birtar á forsíðu vefjarins.