14/04/2024

Fjögur lið komust á úrslitakvöldið

Átta liða úrslit í Spurningakeppni Strandamanna fóru fram í gærkvöldi í Félagsheimilinu á Hólmavík. Að vanda var vel mætt og létt stemmning í húsinu. Keppnirnar voru misspennandi en allar voru þær skemmtilegar og keppendur greinilega með það á hreinu að það skipir höfuðmáli að vera með og helst að hafa svolítið gaman af því um leið. Úrslit í tveimur keppnum réðust ekki fyrr en í síðustu spurningunum. Það voru lið Umf. Neista, kennara við Grunnskólann á Hólmavík, Skrifstofu Strandabyggðar og Hólmadrangs sem komust að lokum á úrslitakvöldið sem verður haldið sunnudaginn 15. apríl næstkomandi. Hér fyrir neðan má sjá úrslit kvöldsins og stuttar umsagnir og hugleiðingar Arnar S. Jónssonar, spyrils og dómara, um hverja keppni:

Umf. Neisti – Heilbrigðisstofnunin Hólmavík = 12-9
„Hér hafði Ungmennafélagið Neisti betur eftir harða baráttu. Staðan eftir hraðaspurningar og þríþraut sem snérist um að þekkja augu nokkurra vel valinna Íslendinga var 8-5 Neista í vil. Liðin svöruðu sex af tíu bjölluspurningum rétt og eftir þær var aðeins eins stigs munur, 10-9 fyrir Neista. Í fyrri vísbendingaspurningunni réðust hins vegar úrslitin þegar Aðalbjörg Óskarsdóttir í liði Neista barði á bjölluna við aðra vísbendingu og svaraði því rétt að Íslendingurinn sem spurt var um væri Mörður Árnason. Liðin áttu ekki roð í seinni vísbendingaspurninguna þar sem þau virtust ómögulega muna hvað höfuðborg Eistlands hét. Þetta var spennandi og skemmtileg keppni með eldhressum liðum sem hefðu bæði getað komist áfram í undanúrslit. Neistafólk var hins vegar heppið með vísbendingaspurninguna, en er afar vel að því komið að vera komið á úrslitakvöldið. Að sama skapi munaði sáralitlu hjá Heilbrigðisstofnuninni – en það gengur bara betur næst.“

Kennarar Grunnskólanum Hólmavík – Leikfélag Hólmavíkur = 16-8
„Tveir þriðju af kennaraliðinu kom beint upp á svið úr svaðilför norður á Strandir og var nokkuð lengi að ná upp dampi gegn liði Leikfélagsins sem innihélt aðeins einn fyrrum keppanda þess. Staðan eftir hraðaspurningarnar var 9-7 kennaraliðinu í vil og allt gat gerst. Í bjölluspurningunum hrukku kennarar hins vegar heldur betur í gang, svöruðu fyrstu fjórum spurningunum rétt og héldu áfram að keyra í fimmta gírnum út keppnina. Að sama skapi hrökk Leikfélagið í bakkgír og náði aðeins einu stigi úr bjölluspurningunum á móti fimm stigum kennaranna. Lið kennaranna er ógnarsterkt og erfitt er að stoppa það þegar það kemst á skrið; hraðinn í bjölluspurningunum er afar mikill. Það má finna til með liði Leikfélagsins sem þurfti að skipta tveimur mönnum út úr liðinu fyrir þetta keppniskvöld og hafði kannski ekki burði til að stilla saman strengi sína.“

Fulltrúar liðanna fjögurra sem komust áfram, Óskar, Úlfar, Hrafnhildur og Lára.

Skrifstofa Strandabyggðar – Grunnskólinn Drangsnesi = 15-10
„Skrifstofan hefur verið með óbreytt lið í fimm ár og það sýndi sig í þessari keppni. Lið Grunnskólans á Drangsnesi sem tefldi fram örlítið breyttu liði frá síðasta keppniskvöldi stóð sig hins vegar afar vel í þessari keppni sem var spennandi allt til lokaspurningar. Eftir hraðaspurningar og þríþraut var staðan 10-7 fyrir Skrifstofuna. Liðin svöruðu samtals fimm bjölluspurningum, m.a. reiknaði lið Grunnskólans á Drangsnesi út á u.þ.b. 4 sekúndum að Grýla í Grýlukvæði hefði haft 29.999 börn í 100 belgjum á 15 hölum. Eftir bjölluspurningar var staðan 12-10 fyrir skrifstofuna sem gerði síðan út um leikinn í seinni vísbendingaspurningunni um skákeinvígi Fischers og Spassky 1972. Vel að verki staðið hjá skrifstofu Strandabyggðar sem er enn einu sinni komin í undanúrslit, en að sama skapi hálfgrátlegt fyrir Grunnskólann á Drangsnesi sem hefði vel getað unnið keppnina með smá skammti af heppni. Heppnin eykst hins vegar eftir því sem menn reyna oftar og það verður sannarlega gaman að fylgjast með Drangsnesingum á næsta ári.“


Hólmadrangur – Sparisjóður Strandamanna = 19-9
„Hér varð leikurinn tiltölulega ójafn. Það var ekki vegna þess að Sparisjóðsfólk stæði sig illa, heldur vegna þess að lið Hólmadrangs var í roknastuði. Liðið náði að svara ellefu hraðaspurningum meðan Sparisjóðurinn svaraði sex, en á einhvern ótrúlegan hátt náðu Hólmadrangsmenn að vera með fullt hús í þríþrautinni meðan Sparisjóðsfólk stóð á gati. Þetta gerði að miklu leyti út um leikinn enda staðan orðin 14-6. Bæði lið héldu þó dampi og skemmtu sér og áhorfendum hið besta. Sparisjóðsfólk klóraði í bakkann í bjölluspurningum en í vísbendingaspurningunum gerðu Hólmadrangsmenn endanlega út um málið. Niðurstaðan var því öruggur sigur Hólmadrangs, 19 stig gegn 9. Sparisjóðsfólk var sennilega óheppið með keppni; það er öflugt lið en þetta var einfaldlega ekki þeirra kvöld. Hólmadrangsliðið hefði hins vegar unnið hvaða lið sem er með frammistöðu sinni sem var mögnuð. Ragnar, Þröstur og Úlfar gætu átt eftir að fara afar langt í keppninni þetta árið.“

Úrslitakvöld spurningakeppninnar verður í Félagsheimilinu á Hólmavík sunnudaginn 15. apríl kl. 20:00.