10/09/2024

Mikil tilþrif á gamlársdagsmóti í fótbolta

Þriðja dag jóla var hið margrómaða Gamlárdagsmót í innanhúsfótbolta haldið í íþróttahúsinu á Hólmavík. Leikar hófust snemma morguns og höfðu 4 lið skráð sig til leiks, lið Geislans undir nafninu Lækjartún522, lið Sundfélagsins Grettis, lið Neista og lið Orkubúsins undir nafninu Orkan. Að sjálfsögðu skörtuðu keppendur gríðarmiklum hæfileikum og tilþrifin voru rifin upp úr skúffunum sem aldrei fyrr. Að vanda þegar Strandamenn mætast í knattspyrnuiðkun þá er tekið vel á því og baráttan er öðru ofar.

Stóð atgangurinn fram yfir hádegi og kom fljótlega í ljós að lið Geislans og lið Sundfélagsins Grettis myndu etja kappi um það hvort stæði uppi sem sigurvegari. Að lokinni fyrri umferð voru Sundfélagsmenn með fullt hús stiga eftir æsispennandi 2-1 sigur á Geislanum. Strax í fyrsta leik í seinni umferðinni mættust þessi lið svo aftur og spennan var í hámarki. Lið Geislans pressaði stíft en gegn gangi leiksins skoruðu Sundfélagsmenn og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðu Geislamenn ekki að koma inn marki og leiknum lauk með sigri Sundfélagsins.

Sundfélagið var því komið með aðra höndina á bikarinn og var svo sigurinn endanlega staðfestur þegar Orkan gerði sér lítið fyrir og lagði Geislann í miklum markaleik. Leikmenn sigurliðs Sundfélagsins Grettis voru Bjarki Magnúsarson, Ingólfur Árni Haraldsson, Kolbeinn Skagfjörð Jósteinsson, Smári Þorbjörnsson, Steinar Þór Baldursson og Sölvi Þór Baldursson.

Þar með má segja að Sundfélagið Grettir hafi unnið eina titilinn sem í boði er á undirbúningstímabili knattspyrnumanna á Ströndum. Framundan eru stífar æfingar alla föstudaga, í íþróttahöllinni Kórnum í Kópavogi,  og eru knattspyrnuþyrstir Strandamenn nær og fjær hvattir til að kynna sér það nánar á Facebook-grúppunni sem heldur utan um þennan vikulega Strandamannahitting.

Myndir frá mótinu má finna á myndasíðum Ingimundar Pálssonar og Smára Þorbjörnssonar.