20/04/2024

Frá íbúaþingi í Strandabyggð

Íbúaþing var haldið á vegum Strandabyggðar fimmtudaginn 29. mars síðastliðinn í félagsheimilinu á Hólmavík. Þingið er liður í vinnu við gerð Staðardagskrá 21 fyrir sveitarfélagið. Ragnhildur Helga Jónsdóttir og Arnheiður Hjörleifsdóttir frá Landskrifstofu Staðardagskrár 21 leiddu þingið. Það fór þannig fram að fólk valdi sér vinnuhóp eftir málaflokkum sem voru valdir úr frá skoðanakönnun sem gerð var á strandir.saudfjarsetur.is nýlega. Þar völdu tæplega 70 manns um mikilvægustu málefni sveitarfélagsins.

Í vinnuhópunum gátu íbúar tekið þátt í umræðum og hugmyndavinnu og þannig haft áhrif á þetta stefnumótunarferli. Um 35 manns mættu á fundinn og þar af 11 unglingar, en sérstakur vinnuhópur var fyrir þessa framtíðaríbúa sveitarfélagsins. Á þinginu komu fram margar góðar hugmyndir sem notaðar verða til áframhaldandi vinnu við þessa stefnumótun. Sveitastjórn vill þakka íbúum þátttökuna og vonast til að geta áfram leitað til íbúanna við framtíðarmótun sveitarfélagsins. Þá vill sveitarstjórn sérstaklega lýsa ánægju sinni með þátttöku ungmennanna en helmingur unglingadeildar Grunnskólans mætti á þingið.

 

Ljósm. Ásta Þórisdóttir