25/04/2024

Financial Times segir Hólmavík gleðiríkasta þorp í heimi

Hamingjusamir HólmvíkingarHið virta fjármálatímarit Financial Times heldur því fram að íbúar Hólmavíkur séu hamingjusömustu íbúar heimi og að þeir geti gert kröfu um að Hólmavík sé gleðiríkasta þorp í veröldinni en í nýlegri alþjóðlegri könnun voru Íslendingar útnefndir hamingjusamasta þjóð í heimi. Sveitarstjórinn á Hólmavík, Ásdís Leifsdóttir, segir aðspurð í viðtali við FT að Hólmvíkingar hafi tekið eftir þunglyndislegum áhrifum sem hækkandi verðbólga og vextir hafa á íbúa landsins ásamt þungum áhrifum við það að búa við óstöðugt gengi íslensku krónunnar. Hún segir það þó lítið skyggja á hamingju íbúa Hólmavíkur sem halda sínu striki. Greinin fjallar um efnahagsástandið á Íslandi og þar er gerð tilraun til að kryfja fall íslensku krónunnar undanfarna mánuði og er m.a. vitnað í Davíð Oddsson seðlabankastjóra og Geir Haarde forsætisráðherra ásamt Ásdísi Leifsdóttur sveitarstjóra á Hólmavík.

Þeir kumpánar Davíð og Geir halda úti vörnum fyrir efnahagsástandinu og staglast á því að það verði ekki um harða lendingu að ræða eins og átti sér stað í Asíu fyrir nokkrum árum og verjast fimlega spurningum blaðamanns Financial Times. "Horfurnar á því að efnahagsástandið á Íslandi fari á sömu leið og gerðist í Asíu fyrir nokkrum árum virðast jafn fjarlægar erlendum fjárfestum og það er einangruðum en glöðum íbúum Hólmavíkur", segir höfundur í grein sinni. Hægt er að nálgast greinina með því að smella hér.