29/05/2024

Ferðamenn komnir af stað

Hótel Laugarholl í BjarnarfirðiFerðamannatímabilið er að hefjast af fullum krafti á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði, en fyrstu gestirnir sem höfðu bókað sig komu frá Hollandi og gistu á Laugarhóli í þrjár nætur í síðustu viku. Að sögn Matthíasar Jóhannssonar hótelstjóra koma margar bókanir í gegnum heimasíðu hótelsins, sem var sett upp á síðasta ári. Um páskana verður mikið um að vera á hótelinu en jeppaklúbbur hefur bókað sig á hótelið yfir hátíðarnar.


Jeppaklúbburinn hefur stefnt að því að gista á Laugarhóli síðustu tvær páskahelgar, en snjóleysið síðustu ár yfir hátíðarnar var til þess að klúbburinn þurfti að endurskoða ferðaáætlun sína bæði árin. „Þessa páska virðist ætla að verða nægur snjór fyrir þau, en klúbbfélagarnir stefna að því að aka á snjó ofan af Steingrímsfjarðarheiði upp á Drangajökul," segir Matthías.

Eftir páska fara svo að drífa að ferðamenn úr öllum heimshornum og reksturinn verður kominn á fulla ferð í byrjun maí. „Ástand vegarins yfir Bjarnarfjarðarháls hefur að vísu oft sett rekstrinum hérna stólinn fyrir dyrnar á vorin, en það er óskandi að vegamálayfirvöld fari að átta sig á því að það er líka stundaður atvinnurekstur hér í Bjarnarfirði," segir Matthías Jóhannsson hótelstjóri á Laugarhóli.

Heimasíða Hótel Laugarhóls í Bjarnarfirði er www.strandir.saudfjarsetur.is/laugarholl