19/04/2024

Félagsheimilið á Hólmavík til umræðu

Á síðasta fundi Menningarmálanefndar Strandabyggðar var samþykkt bókun þar sem skorað var á sveitarstjórn Strandabyggðar að taka málefni Félagsheimilisins á Hólmavík til alvarlegrar skoðunar. Húsið væri ein af lífæðum menningarlífs í Strandabyggð og mikilvægt að starfsemi þess sé vel skipulögð. Fram kemur í greinargerð að staða húsvarðar við Félagsheimilið og starfslýsing sé óljós, einnig er spurt hvernig útleigu á húsinu og þrifum sé háttað, hvort gjaldskrá sé til staðar og loks er bent á að viðhaldi og búnaði í húsinu sé verulega áfátt.

Að mati Menningarmálanefndar þarf að skoða ítarlega hvaða form sé best til að sjá um og stjórna málefnum Félagsheimilisins og einnig þarf að athuga hug sveitarstjórnar og félaga sem eru með eignaraðild að húsinu til starfseminnar. Í framhaldi af þessu samþykkti sveitarstjórn Strandabyggðar á fundi sínum að eigendur hússins yrðu kallaðir saman til að fara yfir stöðu mála og endurskoða eignarhald og kostnaðarskiptingu á Félagsheimilinu.