02/05/2024

Enn má panta á þorrablót

Þorranefndin á Hólmavík vill koma því á framfæri að enn er hægt að panta miða á þorrablótið 4. febrúar. Það kerfi er við lýði að þeir sem vilja mæta þar skrá þátttöku sína fyrirfram og það geta menn gert ennþá með því að hafa samband við Salbjörgu (salbjorg@holmavik.is). Þetta er hugsað til að tryggja að nóg verði til af þorramat fyrir sísvanga Strandamenn. Þorrablót verður einnig haldið á Drangsnesi 4. febrúar, en heyrst hefur að þorrablót Hrútfirðinga verði helgina á eftir, þann 11. febrúar. Ekki hefur frést af þorrablóti í Árnesi eða Sævangi. Hins vegar er ljóst að Góan á Hólmavík verður haldin á þeim merkisdegi 18. mars. Venja er á Hólmavík að konur sjá um þorrablótið, en karlar um Góuhátíðina.