15/04/2024

Ekki henda gömlu afruglurunum

Nú er starfsfólk frá þjónustufyrirtækinu Mömmu búið að vera um víðan völl á Hólmavík og nágrenni undanfarna daga.  Sigurður Marinó Þorvaldsson, umboðsmaður 365 miðla á Ströndum, vildi koma því á framfæri til Strandamanna sem eru að fá nýja tengingu að ekki eigi að henda gömlu afruglurunum, heldur á að skila þeim til Sigurðar ásamt kennitölu áskrifanda. Að sögn Sigurðar  hefur gengið vel að skipta um afruglara og brátt liggur leið Mömmufólksins út á Drangsnes. Þá er bara að vona að færðin og veðrið verði í lagi, en bílar þjónustufyrirtækisins hafa átt eilítið erfitt með að finna dekkjafestu í hálkunni á Hólmavík og fór m.a. einn bíllinn útaf í brekkunni við Braggann á Hólmavík nú fyrr í dag.