22/12/2024

Djúpvegur um Tröllatunguheiði

Engar reglur eru til um nafngiftir nýrra vega, segir í svari sem Leið ehf., barst frá Vegagerðinni vegna hugmynda um nýja nafngift á leiðinni um Arnkötludal og Gautsdal. Frá þessu segir á bb.is. Leið ehf lagði til að væntanlegur vegur verði kallaður Arnkötludalsvegur í stað Tröllatunguvegar eins verið hefur í skjölum Vegagerðarinnar. Segir Magnús V. Jóhannsson svæðastjóri á Norðvestursvæði ekki ástæðu til að breyta því, þar sem sú leið sem farin verður hafi jafnan gengið undir nafninu Tröllatunguheiði. Einhvers misskilnings gætir þó hér, því nýi vegurinn liggur hvergi um Tröllatunguland eða upp á Tröllatunguheiði, þar sem gamli vegaslóðinn liggur, og bærinn Tröllatunga stendur ekki við nýja veginn eða verður tengdur honum.

Á Ströndum virðist vera nokkur sátt meðal heimamanna um að kalla nýja veginn Arnkötludal, en einnig höfðu heyrst nöfn eins og Vonarholtsvegur, Arnkatla, Arnkötludalsvegur, Arnkötluheiði og Gautsdalur. Nafnið Tröllatunguvegur virðist hins vegar alveg fráleitt, þó það sé niðurstaða embættismanna Vegagerðarinnar og er að mörgu leyti einkennilegt að þessi ríkisstofnun skuli endilega vilja efna til ófriðar við heimamenn um nafn vegarins. Ekki er að sjá að það skipti Vegagerðina neinu máli, en marga heimamenn sjálfsagt miklu. Spyrja menn sig hvað vegurinn fram að Tröllatungu eigi þá að heita í gögnum Vegagerðarinnar í framtíðinni.

Sömuleiðis segir í svari Vegagerðarinnar við erindi Leiðar að eðlilegast sé að besti og greiðfærasti vegurinn beri sama nafn og númer og áður „(60) Djúpvegur“. Segir Magnús því verði talað um Djúpveg um Tröllatunguheiði. Leiðin frá hringvegi í Hrútafirði norður í Steingrímsfjörð fái þá nýtt vegnúmer og heiti og hafa ýmsar hugmyndir verið viðraðar í því sambandi eins og t.d. Hólmavíkurvegur, Steingrímsfjarðarvegur og Strandabyggðarvegur að sögn Magnúsar. Þetta kemur einnig fram í frétt bb.is. 

Í bréfi Vegagerðarinnar segir ennfremur að vegir séu oft kenndir við örnefni í landslaginu sem þeir liggja um og hlutfallslega stuttir vegir geri það mjög gjarnan. Á lengri leiðum, sem skilgreindar eru af Vegagerðinni og hafa eitt númer, fara vegheitin ýmist eftir aðalkennileitum eða eftir áfangastað.