Categories
Frétt

Strandagaldur fékk Eyrarrósina

300-eyrarrosin-dorritStrandagaldur fékk Eyrarrósina, ein helstu menningarverðlaun landsins, afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær. Verðlaunin eru veitt framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni og tóku þeir Sigurður Atlason framkvæmdastjóri og Magnús Rafnsson formaður stjórnar Strandagaldurs við verðlaununum úr hendi Dorritar Moussaieff forsetafrúr sem er verndari Eyrarrósarinnar. Verðlaunagripurinn er listaverk eftir Steinunni Þórarinsdóttir og einnig fylgir fjárstyrkur að upphæð 1.5 milljón, auk flugmiða frá Flugfélagi Íslands.

Stjórnarmenn Strandagaldurs mættu allir með tölu á Bessastaði til að vera viðstaddir verðlaunaafhendinguna, en þar var upplýst hvert af þremur verkefnum sem tilnefnd voru úr stórum hópi umsækjenda hefði fengið sjálf aðalverðlaunin. Hin verkefnin sem tilnefnd voru að þessu sinni voru Safnasafnið á Svalbarðseyri og Sumartónleikar í Skálholti. Í stjórn Strandagaldurs eru Magnús Rafnsson sagnfræðingur á Bakka, Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli, Ólafur Ingimundarson húsasmíðameistari á Svanshóli, Matthías Lýðsson bóndi í Húsavík, Valgeir Benediktsson bóndi í Árnesi og Magnús H. Magnússon rafvirki og fv. veitingamaður á Hólmavík.

Í umsögn um Strandagaldur segir m.a. í áliti dómnefndar:

„Strandagaldur stendur að fjölbreyttum verkefnum og sýningum á sviði þjóðfræði og sýningarhalds og hefur frá því að það var opnað vakið verðskuldaða athygli innanlands og utan. Sérstaða svæðisins er nýtt til að draga fram íslenska þjóðtrú og sögu og óhætt er að fullyrða að verkefnið á sér enga hliðstæðu á heimsvísu. Metnaður og fagþekking eru höfð að leiðarljósi. Starfsemin hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun og uppbyggingu atvinnulífs héraðsins sem aftur styrkir stoðir þess og dregur athygli ferðamanna að því. Rík þátttaka heimafólks í starfinu er til fyrirmyndar.“

       580-eyrarrosin-08 580-eyrarrosin-07 580-eyrarrosin-06 580-eyrarrosin-05 580-eyrarrosin-04 580-eyrarrosin-03 580-eyrarrosin-02 580-eyrarrosin-01

Frá afhendingu Eyrarrósarinnar á Bessastöðum – Ljósm. Jón Jónsson /strandir.saudfjarsetur.is