23/12/2024

Dalabyggð berst fyrir jöfnun námskostnaðar

Sveitarstjórn Dalabyggðar tók aukaúthlutun Jöfnunarsjóðs og jöfnun námskostnaðar vegna búsetu til umræðu á fundi sínum í gær, þann 20. október, og samþykkti
ályktanir um bæði þessi mál í einu hljóði. Líst er yfir undrun yfir þeirri leið sem farin er við úthlutun aukaframlags Jöfnunarsjóðs og bent á að skerðing komi illa við sveitarfélög þar sem framlög Jöfnunarsjóðs vega þungt í tekjum. Varðandi jöfnun námskostnaðar vegna búsetu er mótmælt þeirri forgangsröðun sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi þar sem reiknað er með lækkun á framlagi í dreifbýlisstyrki til nemenda þar sem ekki er framhaldsskóli um 40%. Ályktanirnar fylgja hér að neðan:


a.      Aukaúthlutun
Jöfnunarsjóðs

Sveitarstjórn Dalabyggðar undrast þá leið sem farin var við
úthlutun 1000 m.kr. aukaframlags Jöfnunarsjóðs vegna ársins 2009. Hafi markmiðin
með breyttum úthlutunarreglum verið að mæta þeim áföllum sem sveitarfélögin urðu
fyrir árið 2009 er ljóst að þau hafa ekki náðst. Mörg sveitarfélög þar sem
hlutdeild Jöfnunarsjóðs í tekjum  er yfir 50% fá þannig minna aukaframlag í ár
en á síðasta ári. Á sama tíma dragast almenn framlög Jöfnunarsjóðs saman um allt
að 10%.

Í tilfelli Dalabyggðar er um helmingslækkun á aukaframlaginu að
ræða. Almenn framlög Jöfnunarsjóðs lækka á sama tíma um 10% sem þýðir yfir 5%
samdrátt á heildartekjum A-sjóðs sveitarfélagsins. Forsendur úthlutunarreglna
virðast helst taka mið af stöðu sveitarfélaga þar sem þenslan var hvað mest á
árunum 2005 til 2008. Þessari forgangsröðun mótmælir sveitarstjórn
Dalabyggðar.

b.      Bókun vegna jöfnunar námskostnaðar
Sveitarstjórn Dalabyggðar mótmælir þeirri forgangsröðun sem kemur fram í
fjárlagafrumvarpi ársins 2010 og snýr að jöfnun námskostnaðar vegna búsetu. Um
er að ræða um 40% lækkun á milli ára sé tekið tillit til verðlagsbreytinga.
Þetta bitnar hart á þeim íbúum landsins sem ekki eiga þess kost að senda börnin
sín í framhaldsskóla í heimabyggð.

Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á
þingmenn að breyta frumvarpinu í meðförum þingsins. Það er ljóst að skera þarf
niður til að mæta halla á ríkisbúskapnum en það má ekki verða til þess að auka
ójöfnuð. Á Íslandi á að vera jafn réttur til náms óháð efnahag eða búsetu.