Categories
Frétt

Miklar hækkanir á raforku til húshitunar

Frá því var sagt á bb.is í dag að verð hjá dreifbýlisnotendum Orkubús Vestfjarða, sem nota raforku til að hita híbýli sín, er 142% samanborið við meðalverð hjá hitaveitum um landið. Notendur í þéttbýli borga 108% samanborið við meðalverð. Þetta kemur fram í greinargerð Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum sem skorað hafa á iðnaðarráðherra að beita sér fyrir auknum niðurgreiðslum hitunarkostnaðar með raforku, þannig að kostnaður þeirra er nota raforku til húshitunar verði ekki meiri en hjá notendum „meðaldýrra“ hitaveitna.


„Mikil hækkun hefur orðið á raforkuverði til húshitunar frá árinu 2005
og aldrei sem á þessu ári en hækkun sem af er þessu ári nemur 20%. Þar
að auki hefur kostnaður vegna flutnings hækkað mjög mikið“, segir í
greinargerðinni. Þar er bent á að fjárframlög til niðurgreiðslna þurfa
að taka mið af fleiru en verðlagsþróun þar sem notendum á
niðurgreiðslusvæðunum hefur fjölgað. Auknar niðurgreiðslur bæta hag
íbúa svokallaðra „kaldra svæða“ sem enn nota raforku til húshitunar.

Áskoruninni fylgir tafla sem sýnir hve mikill munur er orðinn á
kostnaði hjá fólki eftir því hvar það býr á landinu að hita híbýli sín.
„Svo dæmi sé tekið þá kostar það íbúa í dreifbýli í Dalabyggð 336%
meira en ef hann væri á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er hrópandi óréttlæti
sem þarf að leiðrétta“, segja Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum.

Þá hafa samtökin jafnframt skorað á iðnaðarráðherra að beita sér fyrir
því að fjármagn verði tryggt á fjárlögum 2010 til jarðhitaleitarátaks.
Jafnframt er því beint til ráðherra að stuðningur við jarðahitaleit
verði sérstakur fjárlagaliður eins og er í fjárlögum 2009, en hann
hljóðar upp á 50,8 milljónir. „Öflug jarðhitaleit er forsenda þess að
auka hlut jarðhita í húshitun og til lengri tíma litið lækkar það
niðurgreiðsluþörfina“, segir í greinargerð með áskoruninni og er þar
vísað í skýrslu vinnuhóps iðnaðarráðherra frá 2007 um ávinning og
aðgerðir stjórnvalda til að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis.