12/12/2024

Dagskrá Hamingjudaga að taka á sig mynd

Dagskrá bæjarhátíðarinnar Hamingjudaga á Hólmavík sem haldin verður dagana 2.-5. júlí er nú óðum að mótast og eru uppfærslur á henni gerðar jafnharðan og upplýsingar um viðburðir og atriði berast og eru staðfestar. Dagskrána er að finna á vef Hamingjudaga. Í byrjun vikunnar verður gengið endanlega frá tónlistaratriðum þeirra heimamanna sem færa okkur Hamingjutóna þetta árið. Ef einhverjir luma ennþá að tónlist eða öðrum skemmtiatriðum í pokahorninu eru þeir hinir sömu hvattir til að setja sig í samband við Kristínu S. Einarsdóttir framkvæmdastjóra, hamingjudagar@holmavik.is.

Prentaðri dagskrá verður dreift í 5000 eintökum í byggðarlög í nágrenni Hólmavíkur í lok næstu viku og einnig verður henni dreift á hátíðinni.

Kassabílasmiðja og kassabílarallý verður á sínum stað í dagskránni og verður smiðjan í gangi frá 1. júlí undir stjórn Hafþór Þórhallssonar handverksmanns. Þar verður gert við gamla kassabíla og nýir smíðaðir ef að líkum lætur. Þeir sem eiga aflögu dekk fyrir kassabíla eru beðnir að koma þeim til skila til Hafþórs.

Miklar skreytingar hafa sett svip á hátíðina frá upphafi og hefur hvert hverfi á Hólmavík og sveitin sinn lit sem notaður er sem grunntónn við skreytingarnar og hafa þeir verið eins frá upphafi. Nú hafa verið skipaðir skreytingarstjórar í hverju hverfi á Hólmavík og eru þeir Salbjörg Engilbertsdóttir í rauða hverfinu, Ingibjörg Fossdal í appelsínugula hverfinu og Guðrún Guðfinnsdóttir í bláa hverfinu.