22/12/2024

Brúarviðgerðir á Ströndum

Í nýútkomnum Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar hefur þremur verkefnum á Ströndum verið bætt við á lista um fyrirhuguð útboð. Í öllum tilfellum er um að ræða steypuviðgerðir á brúm á vegi 68. Þarna er um að ræða einbreiðu brýrnar yfir Þambá og Tunguá í Bitrufirði og Hrófá í Steingrímsfirði. Ekki kemur fram hvenær auglýst verður eftir tilboðum í verkið eða hversu umfangsmiklar viðgerðirnar eru. Á vegi 68 sem liggur milli Hrófár í Steingrímsfirði og Staðarskála í Hrútafirði eru ennþá 13 einbreiðar brýr.