14/09/2024

Lítill kosningahugur í Strandamönnum

Eftir því sem ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is kemst næst er fremur lítill hugur í frambjóðendum til sveitarstjórna þetta vorið og engar upplýsingar eða fréttir um slíkt hafa borist vefnum. Í sameinuðum Hólmavíkur- og Broddaneshreppum hafa báðir listar sem voru í framboði síðast komið saman til fundar, en samkvæmt óstaðfestum fréttum af þeim fundum er útlit fyrir að erfiðlega gangi að manna listana. Síðustu daga hafa verið í gangi þreifingar á milli forsvarsmanna listanna um að bjóða fram einn sameiginlegan blandaðan lista, eftir því sem næst verður komist.

Óstaðfestar fréttir herma að minnsta kosti þrír af núverandi sveitarstjórnarmönnum í Hólmavíkurhreppi gefi ekki kost á sér í baráttusæti á framboðslistum – Haraldur V.A. Jónsson oddviti og Elva Björk Bragadóttir á b-lista Framsóknarflokksins sem náði meirihluta í síðustu kosningum og Eysteinn Gunnarsson á h-lista sameinaðra borgara sem hefur tvo fulltrúa af fimm í hreppsnefnd. Ekki hefur frést af fyrirætlunum hreppsnefndarmanna í Broddaneshreppi.

Beðið er formlegra frétta frá framboðslistunum af þessum málum. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur áhuga á að gera slíku efni góð skil fyrir komandi kosningar og minnt er á netfang fréttavefjarins strandir@strandir.saudfjarsetur.is þar sem tilvonandi frambjóðendur eða framboðslistar geta komið á framfæri fréttatilkynningum og greinum þar sem málefni eru rædd og stefnumál kynnt.

Frestur til að skila inn framboðslista er til kl. 12:00 á hádegi laugardaginn 6. maí. Ef enginn listi berst er kosið óbundinni kosningu milli einstaklinga. Berist einn listi ber kjörstjórn að framlengja framboðsfrest um tvo daga. Ef aðeins einn listi er boðinn fram telst hann sjálfkjörinn. Munu þá íbúar í sameinaða hreppnum væntanlega mæta á kjörstað eingöngu til að velja nýtt nafn á sveitarfélagið.

Engin tíðindi hafa heldur borist af framboðsmálum í öðrum sveitarfélögum á Ströndum, nú þegar 11 dagar eru til stefnu að skila inn listum.