19/04/2024

Blessað vatnið búið er…

Vatnslaust varð á Hólmavík í gærkvöldi um kl. 21:00 til 22:00. Að sögn Einars Indriðasonar hjá Strandabyggð varð bilun í stýribúnaði í vatnstanki, en búnaðurinn stýrir vatnshæðinni í tanknum. Hann hefur að öllum líkindum hætt að virka fyrir um tveimur dögum síðan og því var tankurinn orðinn tómur þegar upp komst um bilunina í gær. Viðgerð hófst strax og gekk vel, en tengja þurfti framhjá stýribúnaðinum í fyrstu. Ekkert tjón varð á tækjum og klárað var að gera við í morgun.

Einar segir að til standi að koma upp viðvörunarbúnaði á tankinn, sérstakan upphringibúnað sem lætur vita af breytingum á vatnshæð og öðru óeðlilegu sem kann að gerast í tankinum. Búið er að festa kaup á búnaðinum en eftir er að setja hann upp.