14/09/2024

Rækjufréttir

Rækja á sjávarbotniÁ fimmtudaginn var buðu stjórn og stjórnendur Hólmadrangs sveitarstjóra og hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps á kynningarfund um málefni fyrirtæksins.  Hreppsnefndin skoðaði rækjuvinnsluna undir leiðsögn Björns Hjálmarssonar og að því loknu kynntu stjórnendur rekstur og framtíðaráform fyrirtækisins. Einnig var farið yfir sameiginleg hagsmunamál hreppsins og Hólmadrangs. Meðal þess sem fram kom á fundinum var að á árinu 2004 unnu hjá Hólmadrang á fjórða tug starfsmanna í 26 stöðugildum. 

Veltan á árinu 2004 var rúmar 900 milljónir og framleiddar afurðir voru 2.162 tonn.  Meginhluti þeirrar framleiðslu fer á Bretland, en þar eru kaupendur sem skipt hafa við Hólmvíkinga áratugum saman. Samkvæmt nákvæmri og vel rökstuddri talningu starfsmanna Hólmadrangs komu 1.585.477.535 rækjur skelflettar úr pillunarvélunum árið 2004. 

Þess má svo til gamans geta að sú rækja sem unnin er á Hólmavík er tegundin Stóri kampalampi, á latínu Pandalus borealis, og fyrri hluta æfinar er hún smávaxið karldýr sem svo skiptir um kyn og verður stórvaxnara kvendýr sem eftir er. Karlarnir hafa mök við kvenrækjuna þegar hún hefur skelskipti og er því mjúk og meðfærileg. Reyni karlarnir náin samskipti utan þess tíma mega þeir búast við að verða drepnir og étnir.