22/12/2024

Bjarni ráðinn framkvæmdastjóri Hamingjudaga

Nú er undirbúningur fyrir Hamingjudaga á Hólmavík óðum að fara í gang, en hátíðin fer fram í þriðja skipti í ár, helgina 29. júní til 1. júlí. Menningarmálanefnd Strandabyggðar auglýsti í byrjun mánaðarins eftir framkvæmdastjóra, en engar umsóknir bárust um starfið á tilskyldum umsóknartíma. Nefndin bað því Bjarna Ómar Haraldsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Hamingjudaga síðastliðin tvö ár, um að taka að sér starfið. Eftir viðræður við Bjarna samþykkti menningarmálanefnd á fundi nú fyrr í dag að ráða hann til starfans. Bjarni hefur störf nú þegar og því má búast við tíðindum af Hamingjudögum innan skamms tíma.