20/04/2024

Er rekstur matvöruverslunar á Borðeyri liðin tíð?

Nýlega fengu viðskiptavinir Lækjargarðs ehf orðsendingu um að ákvörðun hefði verið tekin um að loka versluninni, en rekstur hennar var hafin í ársbyrjun 2005. Kaffihúsi Lækjargarðs verður hins vegar haldið opnu áfram. Það mun ljóst vera að um árabil hefur verið erfitt að reka almenna matvöruverslun á Borðeyri. Fámennið er of mikið til að hægt sé að standast samkeppni við verslanir á stærri stöðum, bæði hvað vöruúrval og verð varðar. Á undan Lækjargarði rak Kaupfélagið á Hvammstanga verslun á Borðeyri í rúm tvö ár, frá haustmánuðum 2002, þegar það keypti verslunarhús Kaupfélags Hrútfirðinga, en gafst fljótt upp á því og hvarf frá þeim rekstri í árslok 2004.

Verslunarsögu Borðeyrar má að líkindum rekja allt til landnámsaldar, þó ekki hafi hún verið samfelld og fátt eitt geymst af sögu frá þeim tíma. Í hinum merka Skarðsárannál segir:  ”Um árið 1599 brotnaði skip þýskra kaupmanna í Hrútafirði, stóð þar um veturinn.” Og um næsta ár, árið 1600 segir. ”Brotnaði annað skip í Hrútafirði, er hugðist sækja hið fyrra. Stóðu uppi tvö skip þar.” Var mælt það væri gerningar þýskrar galdrakonu. Um hið þriðja ár 1601, segir: “ Kom hið þriðja skip í Hrútafjörð, sótti annað fyrra, þriðja suður dregið.”

Skömmu eftir þennan atburð, eða 1602, var einokunarverslun komið á, á Íslandi og segir um það í Skarðsárannál: “Sorti á sólu um miðdagsleytið. Versnaði veðrátta, gerði harðindi. Það var sorti á sólu í þjóðlífi Íslendinga”. Þetta nær jafnt til verslunarsvæðis Borðeyrar, sem annarra staða á landinu og er verslun á Borðeyri eða siglinga þangað vart eða ekki getið næstu 250 árin.

Árið 1846 lögleiddi Alþingi Borðeyri sem verslunarstað og vorið 1848, tóku forvígismenn Borðeyrarverslunarhéraðs upp þráðinn, þar sem hann hafði slitnað 250 árum fyrr, þ.e. að fá kaupmenn til að sigla skipum til Borðeyrar, með vöru.

Rúmlega fimmtíu ár voru liðin frá því að siglingar kaupskipa hófust að nýju til Borðeyrar, eftir aldalanga bið, þegar samvinnuverslun var stofnuð á Borðeyri með tilkomu Verslunarfélags Hrútfirðinga árið 1899 sem síðar varð Kaupfélag Hrútfirðinga. Fyrsta fundagerð félagsins er frá 16. maí 1899,  fundurinn var haldinn að Kollsá í Bæjarhreppi.

Kaupfélag Hrútfirðinga var rekið samfellt í 103 ár. Saga félagsins er hin merkasta, á ýmsu gekk í rekstrinum í gegn um árin. Félagið varð fyrir verulegum áföllum er nýlegt verslunarhús félagsins brann 1931 tæpra þriggja ára, og síðar er frystihús, sláturhús að hluta og sölubúð félagsins brann til kaldra kola 1941. Það var hins vegar lán Kaupfélagsins að frá upphafi var stakkurinn sniðinn eftir vexti um rekstur þess og allt fyrirkomulag.
Það mun ljóst vera að í um eina öld var Kaupfélagið máttarstólpi í samfélaginu við Hrútafjörð, en það hættiöllum rekstri á haustmánuðum 2002.

Ekki er öllum verslunarrekstri hætt á Borðeyri þótt Lækjargarður sé að hætta rekstri verslunarinnar, því að enn eru fyrirtæki á Borðeyri sem bæði selja vörur og þjónustu.

Mynd frá Borðeyri frá því fyrir aldamótin 1900, tekin af Vesturfaraskipi af Sigfúsi Eymundsyni agent.

Frá kreppuárunum.

Borðeyri á 21. öldinni.

Heimildir í greininni:
Kaupfélag Hrútfirðinga og forsaga þess, eftir Guðnýju Þorsteinsdóttur. 
Úr erindi er sr. Jón Guðnason flutti á 50 ára afmæli Kaupfélags Hrútfirðinga.
Strandir, grein eftir Jónas Einarsson um Kaupfélag Hrútfirðinga