08/11/2024

Bætir hreinlætismál í Eþíópíu

Hólmvíkingurinn Kristjón Þorkelsson sendifulltrúi Rauða krossins hefur undanfarið verið staddur í Austur-Afríkuríkinu Eþíópíu við hvers kyns hjálparstörf. Um þessar mundir er hann á fullu ásamt öðrum þar um slóðir að gera vatnsbrunna og vatnsþrór fyrir íbúana, en eins og má sjá á meðfylgjandi mynd þá er vatnið sem börn og fullorðnir þar um slóðir nærast á miður geðslegt. Það er gott fyrir okkur allsnægtarfólkið hér á vesturlöndum að vera minnt á það öðru hvoru að við höfum það bara assgoti gott, og lítum kannski ekki alltaf á það réttum augum hvar raunveruleg mannréttindi liggja.

Kristjón hefur um nokkurra misserra skeið starfað á vegum Rauða krossins víðsvegar um hinn stríðshrjáða heim, m.a. í Írak og Súdan og víðar. Að hans sögn þá tekur ein safnþróin sem verið er að gera til að mynda um eina og hálfa milljón lítra en í þrærnar er safnað regnvatni. Það er því kannski von til þess að litla stúlkan á myndinni geti bætt tæru vatni á gosflöskuna sína í nánustu framtíð.

Einnig stendur Kristjón í því að koma fyrir handdælum við brunna hér og þar og að bæta vatnsmál í fangelsum í héruðunum Deder og Gursum ásamt að aðstoða við byggingu ríflega 300 kamra, sem er einnig hluti af því að bæta hreinlætismál í Eþíópíu.

Fyrir þá sem ekki kveikja á perunni hver maðurinn er, þá er Kristjón eiginmaður Ásdísar Leifsdóttur, sveitarstjóra Hólmavíkurhrepps.


Vonandi fær litla stúlkan tækifæri til að bergja á tæru vatni í nánustu framtíð.
Mynd: Kristján Þorkelsson.


Kristjón á tali við heimamann


Vinnuflokkur ásamt Kristjóni við dælugerð


Kort af Afríku.